MÁLVERKASAFN TRYGGVA ÓLAFSSONAR Tryggvi Ólafsson er í hópi þekktustu núlifandi myndlistarmanna þjóðarinnar en hann skipaði sér snemma á ferlinum í framvarðarsveit íslenskra myndlistarmanna með sérstæðum og auðþekkjanlegum stíl. Tryggvi er fæddur árið 1940 í Neskaupstað. Hann hóf ungur að mála og nam myndlist bæði hér á landi og í Kaupmannahöfn, við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1960-61 og Konunglegu listakademíuna í Kaupmannahöfn 1961-66. Lengst af starfsævinnar var Tryggvi búsettur í Kaupmannahöfn. Málverkasafn Tryggva Ólafssonar opnaði formlega í september 2001 og færði Björn Bjarnason, þáverandi menntamálaráðherra, þá safninu að gjöf verkið Kronos fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Veg og vanda af stofnun safnsins átti Magni Kristjánsson, skipstjóri og æskuvinur Tryggva og var safnið fyrst til húsa í gamla Kaupfélagshúsi bæjarins, þar sem nú er Hótel Hildibrand. Árið 2007 fluttist safnið í núverandi húsnæði í Safnahúsinu á Neskaupstað.
nánar -> |